Enski boltinn

Ferguson: Stjörnur leiksins voru Gibson og Anderson

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darron Gibson fagnar öðru marki sínu í gær.
Darron Gibson fagnar öðru marki sínu í gær. Mynd/AFP

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, var ánægður með unga miðjumanninn sinn Darron Gibson eftir að hann skoraði bæði mörk United-liðsins í 2-0 sigri á Tottenham í átta liða úrslitum enska deildarbikarins í gær. Gibson átti mjög góðan leik eins og Anderson sem lék við hlið hans.

„Stjörnur leiksins voru Gibson og Anderson," sagði Ferguson. „Seinna mark Darrons var alveg frábært. Það var frábær sókn sem endaði með glæsilegri afgreiðslu. Hann er mjög fljótur og kraftmikill og lætur hafa mikið fyrir sér," sagði Sir Alex og bætti við:

„Darren er einn af okkar leikmönnum sem getur skorað mörk fyrir utan teig. Hann hefur þvílíka skothörku."

Ferguson segir það koma mjög vel út að gefa yngri leikmönnum fleiri tækifæri hjá Manchester United en hann notaði marga unga leikmenn í síðasta leik liðsins í Meistaradeildinni sem reyndar tapaðist.

„Gibson og Anderson spiluðu báðir mjög vel. Anderson var að taka menn á og sýndi að hann er fljótur og sterkur. Ég vil að þessir strákar spili líka undanúrslitaleikinn því þeir eru að græða mikið á þessum leikjum og eru báðir að verða betri og betri. Liðið er að græða mikið á því að þessir strákar eru að fá þessi tækifæri," sagði Ferguson.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×