Innlent

Algengast að merkt sé við tvo á kjörseðli

Mynd/GVA

Alltaf er talsvert um ógilda kjörseðla í hverjum kosningum. Algengast er að merkt sé við einn lista en einstaklingur strikaður út af einhverjum öðrum lista, sem ógildir atkvæðið, segir Sveinn Sveinsson, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Til að atkvæðaseðill teljist gildur má ekki eiga á nokkurn hátt við lista annan en þann sem kjósandinn hyggst greiða atkvæði sitt.

Sveinn segir í raun duga að strika út eitt nafn á lista til að sá listi teljist hafa fengið atkvæði kjósandans, jafnvel þó sá kjósandi krossi ekki við listabókstafinn. Þess vegna teljist atkvæðaseðlar þar sem merkt er við einn lista en strikað út af öðrum alltaf ógildir, þar sem ómögulegt sé að segja til um hvorn listann viðkomandi kjósandi ætlaði sér að kjósa.

Kjósendur mega þó alltaf merkja við sinn lista, strika menn út af þeim lista, eða breyta röð þeirra með tölustöfum.

Alltaf er eitthvað um að kjósendur ógildi kjörseðla sína með því að krota á þá, eða skrifa á spássíuna. Sumir ganga svo langt að skrifa vísur á kjörseðilinn.

Í slíkum tilvikum verður yfirkjörstjórn að líta svo á að búið sé að auðkenna kjörseðilinn, í raun merkja hann ákveðnum kjósanda. Þar sem slíkt er með öllu óheimilt telst slíkur kjörseðill ógildur, segir Sveinn.

Geri kjósendur mistök í kjörklefanum, eða iðrist þess að hafa párað stöku á kjörseðilinn, geta þeir fengið nýjan kjörseðil afhentan. Þá má að sjálfsögðu ekki stinga þeim fyrri í kjörkassann, heldur skal hann afhentur fulltrúum kjörstjórnar.

brjann@frettabladid.is





















Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×