Enski boltinn

United komið í kapphlaupið um Angel Di Maria

Ómar Þorgeirsson skrifar
Angel Di Maria og Diego Maradona á landsliðsæfingu hjá Argentínu.
Angel Di Maria og Diego Maradona á landsliðsæfingu hjá Argentínu. Nordic photos/AFP

Argentínski landsliðsmaðurinn Angel Di Maria hjá Benfica er skyndilega orðinn bitbein stærstu félaga Englands, Chelsea og Manchester United.

Áhugi Chelsea veltur vitanlega á því að áfrýjun Lundúnafélagsins gegn félagaskiptabanni alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA en Englandsmeistarar Manchester United eru sagðir tilbúnir að stökkva til strax þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar til þess að tryggja sér hinn 21 árs gamla vængmann.

Samkvæmt heimildum Daily Mirror er United með 12 milljón punda kauptilboð í burðarliðnum en forráðamenn Benfica munu væntanlega vilja fá talsvert meiri pening fyrir leikmanninn eftirsótta enda var hann keyptur til portúgalska félagsins á 7 milljónir punda. Samkvæmt portúgölskum fjölmiðlum er verðmiðinn talinn vera á bilinu 25-30 milljónir punda.

Di Maria hefur fengið mikið hrós fyrir spilamennsku sína undanfarið og átti stóran þátt í 5-0 rassskellingu Benfica gegn Everton og sú frammistaða hefur væntanlega ekki farið framhjá forráðamönnum Chelsea og United. Þá hefur landsliðsþjálfarinn Diego Maradona hjá Argentínu látið hafa eftir sér að Di Maria hafi alla burði til þess að verða næsta stórstjarna Argentínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×