Ben Foster mun standa vaktina í marki Manchester United þegar liðið mætir hans gamla félagi, Stoke City, í ensku úrvalsdeildinni á morgun.
Foster var nokkuð gagnrýndur fyrir frammistöðu sína í leik United gegn Manchester City um síðustu helgi. United vann þó leikinn, 4-3.
Margir áttu von á því að Tomasz Kuszczak myndi standa í markinu þar sem hann hélt hreinu í leik United gegn Wolves í enska deildabikarnum í vikunni.
„Það var gott tækifæri fyrir Tomasz að fá að spila þennan leik en Ben verður í markinu á morgun," sagði Alex Ferguson, stjóri United, í samtali við enska fjölmiðla.
„Ben býr reyndar ekki yfir mikilli leikreynslu en hann mun standa sig."
Ferguson á von á því að Edwin van der Sar verði frá í þrjár vikur til viðbótar. Van der Sar meiddist í leik gegn Bayern München á undirbúningstímabilinu.