Varnarmaðurinn Jamie Carragher hjá Liverpool er í viðtali í nýjustu útgáfu af Sky Sports Magazine og þar tjáir hann sig meðal annars um leik Liverpool og Manchester United í næsta mánuði og endurkomu Michael Owen á Anfield.
„Stuðningsmenn okkar eru vanalega mjög góðir í garð fyrrum leikmanna Liverpool sem snúa aftur á Anfield en í tilfelli Owen þá held ég að kveðjurnar verði kaldar. Maður skilur líka afstöðu stuðningsmannanna því hann lék með okkur á sínum tíma en er nú að spila fyrir erkifjendurna.
Svona er fótboltinn og Michael veit það vel. Ég veit líka að móttökurnar munu ekki hafa nein áhrif á hann. Annars hefur Owen ekki verið að hafa sig mikið í frammi í þau skipti sem ég hef mætt honum en það verður að segjast, með fullri virðingu fyrir Newcastle, að þá var hann ekki að fá nægilega góða þjónustu þegar hann var á St. James' Park.
Núna er hann hins vegar kominn í mjög gott lið og verður án vafa hættulegur. Hann er góður vinur minn og ég óska honum auðvitað góðs gengis. Aðeins upp að vissu marki samt," segir Carragher.