Enski boltinn

Barry sendir opið bréf til stuðningsmanna Aston Villa

Ómar Þorgeirsson skrifar
Gareth Barry.
Gareth Barry. Nordicphotos Gettyimages

Miðjumaðurinn Gareth Barry, sem gekk í raðir Manchester City í gær frá Aston Villa á 12 milljónir punda, hefur sent stuðningsmönnum Aston Villa opið bréf sem birt var í breskum fjölmiðlum í dag.

Þar útskýrir hann ákvörðun sína að skipta um félag og vonast til þess að stuðningsmennirnir fyrirgefi honum.

„Ég þakka ómetanlegan stuðning sem ég hef fengið í þau tólf ár sem ég hef spilað fyrir Aston Villa. Ég kom til félagsins sem 16 ára strákur og yfirgef það sem 28 ára karlmaður. Mikið hefur gengið á í þennan tíma og ég er þakklátur fyrir það sem félagið hefur gert fyrir mig, en mér fannst núna rétti tíminn til þess að breyta til. Forráðamenn City ætla sér stóra hluti og metnaður þeirra er sá sami og ég hef. Ég er líka fullviss um að forráðamenn Aston Villa noti peninginn sem þeir fengu fyrir mig til þess að styrkja leikmannahópinn og eins lengi og ég lifi þá mun Aston Villa alltaf vera fyrsta félagið sem ég leita eftir úrslitunum hjá,"segir meðal annars í bréfinu.

Kveikjan af skrifum Barry hefur væntanlega verið sú reiði sem hefur tekið sig upp á stuðningsmannasíðum Aston Villa en þar er Barry meðal annars sakaður um að selja sig fyrir peninga. En leikmaðurinn er sagður hafa skrifað upp á samning sem gefur honum um 100 þúsund pund á viku eða um tuttugu milljónir íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×