Lífið

Töfrandi dúett með Beck

Þórunn Antonía og Beck stilla saman strengi sína á nýrri plötu tónlistarmannsins sem er reyndar endurgerð á hinni sígildu The Velvet Underground & Nico plötu.
Þórunn Antonía og Beck stilla saman strengi sína á nýrri plötu tónlistarmannsins sem er reyndar endurgerð á hinni sígildu The Velvet Underground & Nico plötu. Mynd/Stefán

Söngkonan Þórunn Antonía segir það mikinn heiður að hafa tekið upp plötu með tónlistarmanninum Beck. Frekara samstarf þeirra tveggja er hugsanlegt.

Beck, sem er búsettur í Los Angeles, hefur sett á fót verkefni þar sem hann tekur upp eigin útgáfur af þekktum plötum á aðeins einum degi án nokkurs undirbúnings og birtir afraksturinn á netinu.

Fyrir upptökurnar á hinni sígildu Velvet Underground & Nico var hóað í Þórunni Antoníu með nánast engum fyrirvara og hún beðin um að taka þátt. „Þetta var alveg æðislegt. Ég var í Los Angeles í tvo og hálfan mánuð að syngja með hljómsveit sem heitir thenewno2 sem Dhani, sonur George Harrison, er í. Ég fékk SMS frá vinum mínum einn morguninn þar sem var spurt: „Viltu koma að syngja með Beck í dag?" Ég sagði: „Já, ekkert mál"," segir Þórunn.

Þegar hún mætti í hljóðverið var vinur hennar, hinn heimsfrægi upptökustjóri Nigel Godrich sem hefur unnið með Beck og Radio­head, þar staddur ásamt tónleikabandi Beck og auðvitað Beck sjálfum. Þakkaði hann Þórunni kærlega fyrir komuna og skömmu síðar hófust upptökur. Hljóp Þórunn þarna í skarðið fyrir tónlistar­manninn Devendra Banhart sem átti að vera í hlutverki söngkonunnar Nico.

„Honum leist rosalega vel á mig," segir hún um Beck. „Hann lét mig syngja sólólög og gera dúetta með sér. Við vorum þarna frá tólf á hádegi til tólf á miðnætti og ég spilaði á sítar í einu lagi og tambúrínu í öðru. Ég vissi ekkert hvað myndi verða úr þessu og var ekkert að pæla í þessu. Ég átti bara frábæran dag með góðum hljóðfæra­leikurum," segir hún. „Svo hringdi Beck í mig og bauð mér í heimsókn og ég hlustaði á plötuna heima hjá honum í Los Angeles. Hann sagði að það hefði verið töfrandi stund þegar við sungum saman."

Að sögn Þórunnar var Beck mjög áhugasamur um að starfa aftur með henni í framtíðinni. „Það eru mjög góðar fréttir fyrir mig að fá hrós frá svona manni," segir hún og útilokar ekki að fá aðstoð frá Beck við gerð sólóplötu sinnar sem er í undirbúningi.

Afraksturinn af samstarfi þeirra er þegar kominn á netið. Geta áhugasamir séð Beck og Þórunni syngja dúett í laginu Sunday Morning á heimasíðunni Beck.com.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×