Innlent

Meirihluti vill álver í Helguvík

Meirihluti þeirra sem afstöðu tóku í könnun Fréttablaðsins vilja að reist verði álver í Helguvík. Alls sögðust 57,5 prósent fylgjandi byggingu álvers en 42,5 prósent sögðust andvíg. Vikmörk í könnuninni eru 3,7 prósent og munurinn því marktækur.

Karlar voru líklegri til að styðja byggingu álvers. Alls sögðust 63,4 prósent karla sem afstöðu tóku styðja byggingu álversins, en 51,2 prósent kvenna voru fylgjandi.

Enginn munur var á afstöðu þeirra sem tóku þátt í könnuninni eftir búsetu.

Mikill meirihluti þeirra sem sögðust ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn var hlynntur byggingu álvers, 80 prósent. Enn fleiri fylgismenn Framsóknarflokksins vildu álverið, eða 85 prósent.

Meirihluti stuðningsmanna Samfylkingarinnar, um 56 prósent, var hlynntur byggingu álversins. Stuðningur við byggingu álversins var áberandi minnstur meðal fylgismanna Vinstri grænna. Af þeim voru aðeins tæp 23 prósent þeirrar skoðunar að reisa ætti álverið.

Hringt var í 800 manns þriðjudaginn 7. apríl og skiptust svarendur jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu. Spurt var: Á að reisa álver í Helguvík. 83,6 prósent afstöðu til spurningarinnar. - bj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×