Enski boltinn

Adebayor kærður fyrir bæði atvikin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Emmanuel Adebayor fagnar marki sínu um helgina.
Emmanuel Adebayor fagnar marki sínu um helgina. Nordic Photos / Getty Images

Enska knattspyrnusambandið hefur kært Emmanuel Adebayor, leikmann Manchester City, fyrir tvö atvik í leik City gegn hans gamla félagi, Arsenal, nú um helgina.

City vann leikinn, 4-2, og skoraði Adebayor eitt marka liðsins. Þegar hann fagnaði markinu hljóp hann völlinn endilangan til þess eins að fagna fyrir framan stuðningsmenn Arsenal.

Honum var einnig gefið að sök að hafa traðkað á Robin van Persie, fyrrum samherja sínum hjá Arsenal.

Adebayor hefur nú verið kærður fyrir bæði þessi atvik og hefur til klukkan 17.00 á morgun til að svara kærunum.

Ef Adebayor verður fundinn sekur um að hafa traðkað á van Persie fær hann sjálfkrafa þriggja leikja bann. City mætir Manchester United um næstu helgi.

Mark Clattenburg, dómari leiksins, sagði í skýrslu sinni að hann hefði ekki séð atvikið. Hann bætti við að hefði hann séð Adebayor traðka á van Persie, hefði hann fengið að líta rauða spjaldið umsvifalaust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×