Enski boltinn

John Hartson er ekki lengur í lífshættu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Hartson fagnar hér marki með Celtic.
John Hartson fagnar hér marki með Celtic. Mynd/AFP
John Hartson er ekki lengur í lífshættu eftir að hafa gengið í gegnum heilauppskurð á sjúkrahúsi í Swansea í Wales en hann hefur barist fyrir lífi sínu undanfarnar vikur eftir að hafa greinst með krabbamein.

Hartson var mikill baráttumaður inn á vellinum og hann ætlar greinilega ekki að láta í minni pokann utan hans þrátt fyrir mjög erfið veikindi. Baráttunni er þó hvergi nærri lokið.

John Hartson greindist með krabbamein í eistum sem hafði síðan dreift sér út í heila og lungu. Hann fór strax á skurðaborðið og mun síðan seinna fara í efnameðferð til að vinna bug á krabbameininu.

Fjöldi fólks hefur lagt leið sína á sjúkrahúsið í Swansea og Hartson hefur fengið mikið af bréfum og gjöfum sér til stuðnings á þessum erfiðu tímum.

John Hartson lék með liðum eins og Arsenal, West Ham, Wimbledon og Coventry en bestu fótboltaárin átti hann með Celtic frá 2001-2006 þar sem hann skoraði 89 mörk í 146 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×