Enski boltinn

Cantona ætlar sér stóra hluti í þjálfun

Nordic Photos/Getty Images

Franska goðsögnin Eric Cantona sem lék með Manchester United um miðjan tíunda áratuginn, hefur í hyggju að stýra bæði United og enska landsliðinu í framtíðinni.

Cantona er í guðatölu á Old Trafford eftir að hafa verið aðalmaðurinn í fjórföldu meistaraliði United á árunum 1992-97 en hann er í dag þjálfari franska landsliðsins í strandafótbolta.

"Ég mun líklega stýra sterkasta liði í heimi þegar að því kemur. Ég veit ekki hvenær það verður, en nafn mitt er ritað á bekkinn hjá United. Þar með er ég ekki að segja að Ferguson muni hætta - ég vona að hann haldi áfram til eilífðarnóns," sagði Cantona.

"Það eina sem kemur til greina fyrir utan það að stýra United er að taka við enska landsliðinu. Ég kann vel að meta Fabio Capello landsliðsþjálfara. Hann er strangur og með næmt auga fyrir smáatriðum. Það er það sem þurfti," sagði Cantona.

Hann segist fullviss um að hann muni taka við enska landsiðinu einn daginn - því hann sé einfaldlega sá besti í bransanum.

"Ég get lofað því að fyrr en síðar mun ég taka við enska landsliðinu, því ég á mér merka sögu hjá Manchester United og ég er númer eitt," sagði Frakkinn.

Hann segir United liðið í dag það besta frá upphafi. "Þetta er besta liðið sem Ferguson hefur haft frá því hann tók við United. Hann fær alltaf það besta út úr öllum sínum leikmönnum og ætti að vera hverjum einasta þjálfara fyrirmynd," sagði Cantona.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×