Innlent

Piltur ógnaði öðrum með hníf

Nóttin var tíðindalítil á höfuðborgarsvæðinu, að sögn aðalvarðstjóra lögreglunnar. Lögregla handtók þó undir morgun 16 ára pilt í miðborginni þar sem hann ógnaði öðrum með vasahníf. Drengurinn var færður á lögreglustöð en sökum ungs aldurs var hringt í foreldra hans sem komu og sóttu hann.

Þrír voru teknir grunaðir um ölvun við akstur, þar af var 17 ára unglingstúlka. Hún hefur afrekað á þeim níu mánuðum frá því að hún fékk bílpróf að vera áður svipt ökuréttindum vegna vegna ölvunar við akstur.

Íbúi í Engjahverfi í Grafarvogi varð leiður á hávaða úr samkvæmi nágranna síns og bað um að tónlist úr íbúðinni yrði lækkuð. Þeim samskiptum lauk með því að einn samkvæmisgestanna þurfti að leita til slysadeildar með áverka á höfði eftir átök við nágrannann, sem hafði stjakað óþyrmilega við gestinum með þeim afleiðingum að hann skall með höfuðið utan í vegg.

Þá var ungt par sem er góðkunningjar lögreglunnar handtekið í nótt eftir að hafa brotist inn í bifreið í Hlíðunum og stolið úr henni GPS-tæki. Þau gista nú fangageymslur og bíða þess að verða yfirheyrð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×