Enski boltinn

Shearer kallar á tiltekt hjá Newcastle

Nordic Photos/Getty Images

Alan Shearer, settur knattspyrnustjóri Newcastle, segir að félagið eigi eftir að ganga í gegn um miklar breytingar á næstunni eftir að það féll úr úrvalsdeildinni í dag.

Væntingarnar hafa verið miklar hjá Newcastle undanfarin ár og engin breyting varð þar á í vetur.

Gríðarlegum fjárhæðum hefur verið varið til leikmannakaupa, stór nöfn fengin til að stýra liðinu, en eftir erfiðleika síðustu misseri blasir nú blákaldur veruleikinn við félaginu. Það er fallið úr úrvalsdeildinni.

Alan Shearer var sár þegar hann ræddi við Sky eftir að liðið tapaði lokaleik sínum í deildinni í dag. Hann var fyrst spurður hvort hann gæti hugsað sér að stýra liðinu áfram.

"Við ræðum það ekki strax og ég hef ekkert hugsað um það. Sá sem tekur við þessu liði hefur gríðarlega vinnu fyrir höndum. Það er hræðileg tilfinning að þetta lið sé að fara niður. Það er sárt. Ég hef haft gaman af því að stýra liðinu þó það hljómi undarlega," sagði Shearer.

Hann vill ekki kennan neinum öðrum um þá staðreynd að Newcastle sé að fara að spila í B-deildinni á næstu leiktíð.

"Það þýðir ekkert að kvarta. Það er ekki hægt að segja að við höfum verið óheppnir, við vorum bara ekki nógu góðir - hvorki í dag né í hinum 37 leikjunum. Hér þurfa að eiga sér stað stórar breytingar. Leikmenn þurfa að fara héðan og aðrir að koma inn í staðin. Að mínu mati þarf að taka til hér frá a til ö," sagði Shearer.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×