Enski boltinn

Sunderland enn í fallhættu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Sunderland fagna sínu marki í kvöld.
Leikmenn Sunderland fagna sínu marki í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Portsmouth vann í kvöld 3-1 sigur á Sunderland í lokaleik næstsíðustu umferðar ensku úrvalsdeildarinnar.

Þar með er ljóst að Sunderland er enn í fallhættu en liðið er með 36 stig, tveimur meira en erkifjendurnir í Newcastle sem eru í átjánda sæti. Hull er svo á milli þessara tveggja liða með 35 stig.

Kenwyne Jones kom Sunderland yfir í leiknum með skoti af stuttu færi eftir glæsilegan undirbúning og fyrirgjöf Calum Davenport.

Þetta mark kom á 58. mínútu en aðeins tveimur mínútum síðarn áði John Utaka að jafna metin. John Utaka var þar að verki eftir að Peter Crouch hafði skallað boltann fyrir hann.

Á 68. mínútu varð svo Phil Bardsley fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Hann var að reyna að forða því að Utaka næði að skora en hann var kominn framhjá Martin Fulop markverði eftir slæm mistök Anton Ferdinand, varnarmanns Sunderland.

Varamaðurinn Armand Traore gekk svo frá leiknum á 88. mínútu og enn og aftur kom John Utaka við sögu. Hann átti sendinguna á Traore sem lék á einn varnarmann Sunderland og skoraði með föstu skoti utarlega í vítateignum.

Hermann Hreiðarsson lék allan leikinn í liði Portsmouth en þetta var ef til vill hans síðasti heimaleikur með félaginu. Portsmouth mætir Wigan á útivelli í lokaumferðinni.

Sunderland (36 stig), Hull (35), Newcastle (34) og Middlesbrough (32) eru öll í fallhættu en neðsta liðið, West Brom, er þegar fallið.

Leikir liðanna í lokaumferðinni:

Sunderland - Chelsea

Hull - Manchester United

Aston Villa - Newcastle

West Ham - Middlesbrough




Fleiri fréttir

Sjá meira


×