Lífið

MH tók fyrsta MH-Kvennó daginn

Skólalíf skrifar
Menntaskólinn við Hamrahlíð.
Menntaskólinn við Hamrahlíð.
Menntaskólinn við Hamrahlíð bar sigurorð af Kvennaskólanum á fyrsta MH-Kvennó deginum í gærkvöldi. Keppnin hófst á Miklatúni um miðjan dag í gær og lauk með ræðukeppni í hátíðarsal MH.

Þar tókust ræðulið skólanna á um umræðuefnið Almúginn er leiksoppur, og mæltu Kvenskælingar með, en MH-ingar á móti. Mæting á keppnina var með besta móti, hátíðarsalurinn var troðfullur og stemning meðal áhorfenda mikil.

Keppnin var að sögn æsispennandi og skylmdust liðin á báða bóga um efnið. Mistök tímavarðar munu þó hafa sett strik í reikninginn, því þrjátíu sekúndna viðvörunarspjaldið sem ræðumönnum er rétt til að koma í veg fyrir að þeir tali fram yfir tímamörk skilaði sér aldrei til frummælanda Kvennaskólans, og því talaði hann um hálfri mínútu of lengi.

Dómarar tóku þó þá ákvörðun að láta mistökin ekki hafa áhrif á stigagjöfina, þar eð þeir voru ekki bundnir af reglum MORFÍS, enda um vináttukeppni milli skólanna að ræða. Úr varð að Menntaskólinn við Hamrahlíð sigraði með átta stigum, en Baldur Eiríksson, stuðningsmaður Kvennaskólans, var valinn ræðumaður kvöldsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×