Enski boltinn

Duff vill halda áfram hjá Newcastle

Nordic Photos/Getty Images

Írski landsliðsmaðurinn Damien Duff hjá Newcastle segist ekki vilja fara frá félaginu í kjölfar þess að það féll í B-deildina á Englandi. Hann vill vera áfram hjá Newcastle og koma því beint upp í efstu deild á ný.

Duff varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark sem réði úrslitum í lokaleik Newcastle á leiktíðinni, sem hefur verið hörmuleg í alla staði fyrir félagið.

Newcastle féll endanlega í gær þegar það tapaði 1-0 fyrir Aston Villa, en það var ekki endilega sá leikur sem gerði útslagið hjá Duff og félögum.

"Ég er eins hliðhollur félaginu og hægt er og ég vil koma Newcastle upp um deild strax aftur óháð því hvað Alan Shearer (knattspyrnustjóri) gerir. Ég kann ekki að útskýra hve ömurlega mér leið eftir að hafa fallið. Ég hef auðvitað fallið áður með Blackburn og Nicky Butt féll með Birmingham á sínum tíma, en ég óska engum þess að þurfa að ganga í gegn um þetta," sagði Duff.

Hann segir Newcastle of gott lið fyrir B-deildina. "Ég er ekki að tala af vanvirðingu um B-deildina þó ég segi að Newcastle sé of stór klúbbur til að vera þar. Ég vil vera að spila í úrvalsdeildinni strax aftur á þarnæstu leiktíð," sagði Duff.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×