Enski boltinn

Capello ánægður með draumabyrjun með enska landsliðinu

Ómar Þorgeirsson skrifar
Fabio Capello.
Fabio Capello. Nordic photos/Getty images

Landsliðsþjálfarinn Fabio Capello hefur viðurkennt að hann hafi ekki búist við því að byrja jafn vel með enska landsliðið og raun ber vitni um en liðið hefur unnið alla sex leiki sína í undankeppni HM 2010.

„Mér hefði aldrei órað fyrir því áð vinna fyrstu sex leikina í undankeppninni. Þetta hefur vissulega byrjað betur en ég þorði að vona. Nú verðum við hins vegar að horfa fram á veginn og halda áfram. Nú verðum við að ná sjöunda sigrinum," segir Capello.

Capello er þekktur fyrir að setja þeim liðum sem hann þjálfar strangar umgengisreglur og hefur einnig gert það hjá enska landsliðinu og það virðist vera að skila góðum árangri. Leikmenn liðsins spila sem ein heild og sjálfstraustið virðist vera komið til baka eftir ósannfærandi spilamennsku undanfarin ár.

„Sjálfstraust er það sem skiptir mestu máli í fótbolta. Leikmennirnir verða að trúa á sjálfa sig og trúa að þeir geti gert nánast hvað sem er inni á fótboltavellinum," segir Capello.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×