Lífið

Brown uppseldur um helgina

Nýjasta bók Dans Brown, The Lost Symbol, hefur selst í hundruðum eintaka hér á landi á skömmum tíma.
Nýjasta bók Dans Brown, The Lost Symbol, hefur selst í hundruðum eintaka hér á landi á skömmum tíma.

Búist er við því að nýjasta bók Dans Brown, The Lost Symbol, seljist upp hér á landi um helgina. Í gær voru rúmlega eitt hundrað bækur eftir á lager af þeim fimm hundruð sem pantaðar voru. Næsta upplag er ekki væntanlegt í búðir fyrr en í þarnæstu viku.

„Bókin hefur rokselst síðan hún kom,“ segir Jónfinn Joensen, vörustjóri erlendra bóka hjá Eymundsson. „Hún er uppseld í mörgum búðum en er til í stærstu búðunum enn þá. Við erum að reikna með því að bækurnar klárist um helgina. Þetta er mjög svipað og við bjuggumst við.“

Bókin seldist í einni milljón eintaka á fyrsta útgáfudeginum í Bretlandi og Bandaríkjunum samanlagt, sem mun vera nýtt met. Því kemur árangurinn hér á landi ekki á óvart.

Bókin er væntanleg í íslenskri þýðingu í byrjun nóvember og verður fyrsta upplagið prentað í 5.000 eintökum. Metsölubók Dans Brown, Da Vinci-lykillinn, hefur selst í 25 þúsund eintökum hér á landi og því líklegt að fyrsta upplagið af The Lost Symbol, eða Týnda tákninu, seljist fljótt upp.

Nú styttist einnig í að þriðja bókin í Millennium-þríleik Stiegs Larsson, Loftkastalinn sem hrundi, komi út á ensku hér á landi, eða 1. október. Önnur bókin í seríunni kemur einmitt út í dag á íslensku. „Hún var að koma úr prentsmiðjunni,“ segir Jónfinn um þriðju bókina. „Það er búin að vera gríðarlega mikil eftirspurn eftir þessari bók.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×