Enski boltinn

Martinez tekur við sem knattspyrnustjóri Wigan

Ómar Þorgeirsson skrifar
Roberto Martinez.
Roberto Martinez. Nordicphotos Gettyimages

Enska úrvalsdeildarfélagið Wigan hefur staðfest að Roberto Martinez verði brátt kynntur sem nýr knattspyrnustjóri félagsins en hann tekur við af Steve Bruce sem fór sem kunnugt er til Sunderland.

Stjórnarformaðurinn Dave Whelan hjá Wigan staðfesti fregnirnar í samtali við Sky Sports fréttastofuna en Wigan er talið þurfa að greiða Swansea um 2 milljónir punda til að leysa Spánverjann undan samningi sínum.

„Ég er himinlifandi með að við séum að fá Martinez aftur til okkar og ég veit að stuðningsmennirnir eiga eftir að taka honum vel," segir Whelan.

Martinez lék með Wigan á árunum 1995-2001 og naut hann þá mikilla vinsælda hjá stuðningsmönnum félagsins en um tíma voru þá ásamt Martinez tveir aðrir Spánverjar hjá Wigan, Jesús Seba og Isidro Díaz og voru þeir gjarnan nefndir „Three Amigos".

Martinez, sem er aðeins 35 ára gamall, hefur gert góða hluti með Swansea en hann tók við sem knattspyrnustjóri hjá félaginu árið 2007 og skilaði félaginu upp um deild á sínu fyrsta keppnistímabili sem knattspyrnustjóri. Félagið endaði svo í áttunda sæti í b-deildinni á Englandi á nýafstaðinni leiktíð en félagið var að spila þar í fyrsta skipti í 24 ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×