Innlent

Bar umboð sitt undir borgarlögmann áður en farið var í viðræður

Vilhjálmur Þ. Vilhálmsson.
Vilhjálmur Þ. Vilhálmsson.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi og tilvonandi borgarstjóri í Reykjavík segist hafa borið umboð sitt í REI málinu svokallaða undir borgarlögmann áður en hann fór í málið. „Ég fékk úr þessu skorið og það hefði ekki hvarflað að mér að gera þetta án þess að vera með umboð," sagði Vilhjálmur í Kastljósi Ríkisútvarpsins fyrir stundu.

Vilhjálmur segir hins vegar að í ljósi þess að tveir lögmenn sem fengnir voru til ráðgjafar í málinu hafi sagt að vafi leiki á umboði borgarstjóra í málinu þá sé brýnt að skerpa á þessum málum fyrir framtíðina. Hann sagði einnig að hingað til hefði ekki tíðkast að borgarstjóri sækti umboð til borgarráðs þegar kæmi að málum sem þessum.

Sigmar Guðmundsson, spyrill í Kastjósinu, benti á misræmi í orðum Vilhjálms í sama þætti í október. Þann fjórða þess mánaðar sagðist Vilhjálmur hafa haft vitneskju um kaupréttarsamningana sem gera átti við stjórnendur REI og starfsmenn Orkuveitunnar. Fjórum dögum síðar kom hann hins vegar í sama þátt og neitaði að hafa haft vitneskju um málið. Vilhjálmur kannaðist ekki við þetta misræmi í kvöld og sagðist telja að snúið hafi verið út úr orðum hans.

Aðspurður hvort enginn ætti að bera ábyrgð í málinu sagðist hann ekki vilja fella sleggjudóma og benti á að stjórnir REI og OR ættu eftir að fjalla um málið. „Ég vil ekki fullyrða um hvort einhver þurfi að bera ábyrgð í málinu," sagði Vilhjálmur og bætti því við að núverandi borgarstjóri Ólafur F. Magnússon þurfi að útskýra betur orð sín frá því í dag þegar hann sagði ljóst að einhverjir verði að bera ábyrgðina. „Borgarstjóri verður að botna það sjálfur," sagði hann.

Aðspurður hvort hann hafi íhugað að segja af sér vegna málsins sagði hann svo ekki vera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×