Innlent

Verður að fara varlega í vegarlagningu við Þingvelli

MYND/Anton

Þorgerður Katín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra segir að stíga verði varlega til jarðar þegar verið sé að leggja veg á því viðkvæma svæði sem Þingvellir og nágrenni eru. Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri - grænna, benti á að vatnalíffræðingar hefðu skorið upp herör gegn lagningu Gjábakkavegar á milli Þingvalla og Laugarvatns vegna umhverfisáhrifa hans. Fremstur í flokki færi þar dr. Pétur M. Jónasson sem hefði kært vegarlagninguna.

Þá sagði Álfheiður að það tíðkaðist hvergi að hraðbrautir væru lagðar um þjóðgarða sem væru á heimsminjaskrá UNESCO og benti hún á að UNESCO fylgdist með framvindu málsins og áhrifum þesss á stöðu Þingvalla á heimsminjaskrá. Innti Álfheiður ráðherra eftir áliti á málinu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir benti á að Gjábakkavegur væri ekki skipulagður innan þjóðgarðsins sjálfs en það mætti taka undir það að það væri áhyggjuefni þegar verið væri að setja upp veg við þetta viðkvæma svæði, bæði út frá menningarsögu og vatnsvernd. Það yrði að stíga varlega til jarðar við vegarlagninguna.

Álfheiður fagnaði svari ráðherra og sagðist taka undir þá áskorun á samgönguráðherra að breyta vegarlagningunni áður en meiri skaði væri skeður. Það væri ekki hægt að skella skollaeyrum við ábendingum frá Pétri M. Jónassyni sem hefði varið ævistarfi sínu í rannsóknir á Þingvöllum. Hann óttaðist áhrif vegarins á vatnsbúskap og hrygningu fiska í Þingvallavatni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×