Innlent

Tafir á brottför flugvéla vegna mótmæla

Tafir urðu á brottför nokkurra flugvéla frá Keflavíkurflugvelli í morgun vegna þess að tugir vörubíla lokuðu Reykjanesbraut í Kúagerði upp úr klukkan fimm í morgun. Enginn missti þó af flugi því áhafnirnar töfðust líka.

Bílstjórarnir létu ekki af mótmælaaðgerðum fyrr en um klukkan hálfsjö. Langa bílalestir höfðu þá myndast, einkum í suðurátt, þar sem flugfarþegar voru í miklum meirihluta. Þar töfðust einnig áhafnir vélanna sem farþegarnir ætluðu með. Það var því mikill asi á farþegum og flugáhöfnum þegar loks var komið í Leifsstöð. Vélarnar koma eitthvað seinna til baka en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir.

Að sögn Sturlu Jónssonar, talsmanns vörubílstjóranna, var þátttaka í aðgerðinni framar öllum vonum og telur hann að hátt í hundrað vörubílstjórar hafi teki þátt í henni.

Laust fyrir klukkan átta lokuðu svo vörubílar Hafnarfjarðarveginum sunnan við Gjána í Kópavogi og stóð sú aðgerð í klukkustund. Í fyrradag voru mótmæli við Höfn í Hornafilrði og bílstjórar vöktu líka athygli á háu eldsneytisverði á Egilstöðum í gær og sama gerðu félagar þeirra á Akureyri líka í gær þannig að mótmælin eru ekki bundin við höfuðborgarsvæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×