Innlent

Snjóflóð lokar veginum um Ólafsfjarðarmúla

Snjóflóð féll fyrr í dag á veginn um Ólafsfjarðarmúla, milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar, og er hann nú lokaður en verið er að moka leið í gegn.

Óveðrið á Austurlandi er heldur að ganga niður en leiðir milli Egilsstaða og stærstu þéttbýlisstaða fjórðungsins eru þó enn ófærar. Verið er að moka Fagradal, milli Egilsstaða og Reyðarfjarðar, og vonast Vegagerðin til að sú leið opnist fljótlega upp úr klukkan þrjú. Ófært er hins vegar um Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar.

Veður fer versnandi á Holtavörðuheiði og þar er nú hálka og skafrenningur. Á sunnanverðum Vestfjörðum hefur mokstri verið hætt á Klettshálsi vegna veðurs og þar er nú þungfært.

Á Norðurlandi vestra er vaxandi vindur, skafrenningur og éljagangur og víða komin einhver hálka. Á Öxnadalsheiði eru hálka og skafrenningur, en snjókoma eða éljagangur er við Eyjafjörð og í Þingeyjarsýslum og víðast hvar snjóþekja eða hálka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×