Innlent

Tíð borgarstjórnarskipti tefja deiliskipulag á Hverfisgötureit

MYND/Valli

Stjórnendur eignarhaldsfélagsins Festa, sem á eignir á svokölluðum Hverfisgötureit, segja að pólitískir sviptivindar í borginni hafi tafið viðræður félagsins og borgaryfirvalda um uppbyggingu á reitnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Greint hefur verið frá því að eldur hafi komið upp í yfirgefnum húsum í eigu Festa á Hverfisgötureitnum og eigendurnir hafa verið sakaðir um að láta þau drabbast niður. Í yfirlýsingu frá Festum segir að félagið hafi um langa hríð rætt við borgaryfirvöld um heildstæða uppbyggingu á reitnum og í sameiginlegri yfirlýsingu Festa og Skipulagssjóðs Reykjavíkurborgar frá febrúar 2007 sé gert ráð fyrir endurskoðun á deiliskipulagi hans. Ætlunin sé að sætta ólík sjónarmið um útlit og byggingarmagn í löngu tímabærri endurreisn miðborgarinnar.

Hluti þeirra húsa sem fjarlægð verða hafi verið keypt af Skipulagssjóði til niðurrifs og áformað sé að nokkur önnur hús á reitnum verði jafnframt fjarlægð. Hagsmunir Festa af því að láta þau standa auð með tilheyrandi sjónmengun og slysahættu séu því engir.

„Því miður hafa pólitískir sviptivindar síðustu missera í stjórnkerfi borgarinnar valdið ófyrirséðum töfum í viðræðum Festa og borgaryfirvalda. Af þeim ástæðum hefur skapast óþægilegt millibilsástand sem vonandi mun ljúka hið allra fyrsta. Festar taka undir þær áhyggjur af öryggismálum í mannlausum húsum sem komið hafa fram að undanförnu og undirstrika að af hálfu félagsins er eindreginn vilji til að fjarlægja húsin tafarlaust og ganga frá lóðum þeirra með viðunandi hætti þar til byggingarframkvæmdir geta hafist. Samkvæmt gildandi verklagsreglum borgaryfirvalda fæst hins vegar ekki heimild til niðurrifs fyrr en skipulagsráð hefur samþykkt teikningar af því sem byggt verður í staðinn," segir í tilkynningunni.

Forsvarsmenn Festa segja enn fremur að þeir hafi lokað umræddum húsum á Hverfisgötureit eins vel og auðið sé hins vegar sé aldrei er hægt að útiloka innbrot í auð hús né heldur hugsanlega íkveikju eða önnur skemmdarverk í þeim. „Vel lokað hús varnar fólki vissulega inngöngu en það getur líka lokað fólk inni ef neyðarástand skapast. Kyrfileg lokun húsanna getur því orðið mikil slysagildra, bæði fyrir hugsanlegt hústökufólk og t.d. slökkviliðsmenn sem þar þyrftu að athafna sig. Þess vegna láta Festar í ljós von um að fá sem allra fyrst heimild til að fjarlægja þau hús sem borgaryfirvöld hafa þegar tekið ákvörðun um að verði rifin. Einungis þannig verður yfirvofandi hættu á frekari óhöppum eytt auk þess sem ásýnd svæðisins yrði viðunandi þar til nýframkvæmdir geta hafist," segir í tilkynningu Festa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×