Innlent

Vörubílstjórar teppa umferð í Ártúnsbrekku

MYND/Egill

Löng vörubílaröð liggur frá Grensásvegi til bensínstöðvar N1 í Ártúnsbrekku á leiðinni út úr bænum og eru miklar umferðartafir af þessum sökum. Vörubílstjórar sem eru óánægðir með hátt olíugjald og háar sektir Vegagerðarinnar ákváðu að teppa umferð í brekkunni með því að leggja bílum sínum á veginn.

Að sögn Páls Pálssonar, forsvarsmanns hagsmunasamtaka vörubílstjóra sem stofnuð voru á dögunum, er mikill hiti í mönnum. Hann segir mótmælin í dag ekki að frumkvæði samtakanna heldur hafi hópur vörubílstjóra ákveðið að taka málin í sínar hendur. Verið sé að mótmæla hækkandi olíuverði og gjaldheimtu ríkisins af vörubílstjórum.

„Olían er orðin dýr og við borgum það sama og fólk setur á bílana sína. Við borgum þungaskatt af bílunum, sem eru um 14 krónur á hvern ekinn kílómetra hjá 44 tonna bíl. Svo borgum við líka þungaskatt af olíunni. Menn eru alveg gáttaðir á því hvernig hægt er að tvískatta okkur," segir Páll og bendir á að það sé hagur almennings að álögur ríkisins á vörubílstjóra verði lækkaðar.

Páll bætir við að vörubílstjórar séu einnig mjög ósáttir við það hvernig Vegagerðin sekti menn fyrir að aka lengur en reglugerð heimili. „Við megum keyra í fjóra og hálfan tíma og ef við stoppum ekki á mínútunni erum við sektaðir. Hvergi nokkurs staðar annars staðar er fólk skikkað til að fara í mat á tilteknum tíma," segir Páll og telur mikilvægt að ná eyrum stjórnvalda.

Páll segir vörubílsstjórum verulega heitt í hamsi. „Á fundi sem við héldum á dögunum voru menn mjög harðir. Menn ræddu jafnvel um að fara að fordæmi Frakka og losa skít á tröppur Alþingishússins, svo heitt var þeim í hamsi," segir Páll.

Vörubílstjórar hittusst í Skútuvogi og öku þaðan upp í Ártúnsbrekku.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.