Innlent

Vill skoða fleiri kosti en Hellnahraun undir fangelsi og lögreglustöð

MYND/Stefán

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra vill skoða fleiri kosti enn þann sem er í boði undir lögreglustöð og fangelsi í Hellnahrauni áður en ákvörðun verður tekin um byggingarstað. Þetta kom fram í máli ráðherrans við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins.

Siv spurði um áform í uppbyggingu fangelsis og nýrra höfuðstöðva lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Benti hún á að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hefðu boðið fram lóð undir starfsemina í Hellnahrauni.

Ráðherra benti á að þegar hann hefði tekið við sem dómsmálaráðherra vorið 2003 hefðu verið upp hugmyndir um stórt og rammgert fangelsi á Hólmsheiði. Hugmyndir hans í þessum málum hefðu þróast á þeim tíma sem síðan væri liðinn í það æskilegast væri að tengja saman gæsluvarðhaldsfangelsi og lögreglustöð á höfuðborgarsvæðinu en að meira yrði byggt upp á Litla-Hrauni og það yrði áfram stærsta fangelsi landsins.

Taldi Björn æskilegast að selja lóð lögreglunnar á Hverfisgötu og kaupa aðra lóð á höfuðborgarsvæðinu og sagðist hann hafa skipað nefnd vegna málsins sem ætti að vinna að uppbyggingu á Litla-Hrauni, en áætlanir væru um að hefja uppbyggingu þar á þessu ári. Um tilboð Hafnarfjarðarbæjar sagði ráðherra að hann vildi skoða fleiri kosti áður en ákvörðun í málinu væri tekin.

Siv sagðist túlka orð ráðherra á þann veg að erindi Hafnarfjarðarbæjar hefði verið hafnað að svo stöddu og að ráðherra hefði einnig staðfest að ekki ætti að byggja stórt fangelsi á Hólmsheiði heldur byggja meira upp á Litla-Hrauni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×