Innlent

Fjármunir færðir til til að leysa stuðningsfjölskylduvanda

MYND/GVA

Búið er leysa vanda Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Reykjanesi sem snýr að stuðningsfjölskyldum fatlaðra barna en halli skrifstofunnar frá síðasta ári er enn óleystur. Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra við upphaf þingfundar í dag.

Ráðherra kvaddi sér hljóðs við upphaf þingfundar í dag til þess að leiðrétta orð Árna Þór Sigurðssonar, þingmanns Vinstri - grænna, á Alþingi í gær. Þar hefði Árni sagt að ráðherra hefði ekki sagt rétt frá í óundirbúnum fyrirspurnum á mánudag um að engri fjölskyldu fatlaðs barns á Suðurnesjum hefði verið neitað um samning um stuðningsfjölskyldu. Vísaði Árni þar til fréttar í Ríkisútvarpinu í hádeginu í gær.

Sagði Jóhanna að það væri miður að Árni hefði ekki látið sig vita að hann hygðist taka upp málið í gær. Vísaði Jóhanna enn fremur til þess að svæðisskrifstofan hefði í gær sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram hefði komið að engum hefði verið neitað um samning. Þar hefði einnig komið fram að Jóhanna hefði ekki farið með rangt mál.

Árni Þór Sigurðsson baðst afsökunar á því hafa ekki látið ráðherra vita að hann hygðist taka upp málið á þingi í gær en hann hefði átt von á ráðherra á þingfundi. Sagði hann að svo virtist sem ráðherra hefði hrokkið upp af standi vegna umfjöllunar Ríkisútvarpsins og á þingi og tekið málið fyrir. Hann hefði í gær hlustað á viðtal við föður fatlaðs barns í Ríkisútvarpinu og því tekið málið upp. Þá sagði Árni að hann hefði ekki sagt afdráttarlaust að ráðherra hefði farið með rangt mál heldur sagt að svor virtist vera. Spurði Árni enn fremur hvort búið væri að leysa málefni svæðisskrifstofunnar.

Jóhanna sagði rekstrarvanda svæðisskrifstofunnar hafa verið til skoðunar í nokkurn tíma og viðræður hafi verið í gangi þegar fréttaflutningur af málinu hafi hafist. Málefni stuðningsfjölskyldna hafi verið leyst með tilfærslu fjármuna innan stofnunarinnar en 30 milljóna króna halli hennar frá síðasta ári væri  ennóleystur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×