Innlent

Á annað hundrað á Lækjartorgi - utanríkisráðherra sendi baráttukveðjur

Talið er að á annað hundrað manns hafi verið saman komnir á útifundi á Lækjartorgi sem samtökin Ísland-Palestína efndu til í hádeginu. Tilgangurinn var að mótmæla árásum Ísraela á Gasaströnd. Utanríkisráðherra sendi fundarmönnum sínar bestu baráttukveðjur.

Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og formaður samtakanna Ísland-Palestína, sagði í hádegisviðtalinu á Stöð 2 að það væri eins og morðæði hefði gripið Ísraelsher. Um 120 manns hefðu fallið síðastliðna viku, þar af um 25 börn, og Ísraelsher hefði hótað enn verri aðgerðum.

Sveinn Rúnar Hauksson heimsótti Gasasvæðið fyrir áramót og segir ástandið þar skeflilegt.MYND/AP

Sveinn sagði ísraelsk stjórnvöld hafa réttlætt hörð viðbrögð sín með eldflaugaárásum Hamas-samtakanna en þær væru nánast barnaleikur í samanburði við hátæki Ísraelshers. Vissulega væri hræðilegt að verið væri að skjóta eldflaugum yfir til Ísraels og sagði Sveinn einn Ísraelsmann hafa fallið í síðustu viku. Því hafi verið svarað með morði á 120 Palestínumönnum.

Þá sagði hann eldflaugum ekki rigna yfir Ísraela heldur þvert á móti flóttamannabúðir Palestínumanna á Gasa sem væru mjög þröngar en þar hefðust við um 150 þúsund manns við mjög illan kost. Bæði lyf, matvæli og rafmagn vantaði og hætta væri á drepsóttum á svæðinu

Utanríkisráðherra segir framferði Ísraela gagnvart óbreyttum borgurum óafsakanlegt.MYND/GVA

Skýrt brot á alþjóðalögum

Aðspurður taldi Sveinn að fundurinn á Lækjartorgi myndi skila samstöðu og mikilvægum skilaboðum til ísraelskra stjórnvalda. Utanríkisráðherra hefði lýst yfir stuðningi við fundinn. Fram kemur í tilkynningu utanríkisráðherra til fjölmiðla að framlag fundarmanna sé mikilvægt til að vekja athygli á þeim grimmdar verkum sem nú eigi sér stað á Gasa.

„Framferði Ísraelsmanna gagnvart óbreyttum borgurum er óafsakanlegt og skýrt brot á alþjóðalögum auk þess sem friðarferlinu er stefnt í voða. Íslensk stjórnvöld fordæma þetta framferði og munu hér eftir sem hingað til koma þeirri skoðun skýrt á framfæri á alþjóðavettvangi. Mikilvægt er að allir málsaðilar leggist á eitt við að leiða friðarferlið til farsælla lykta fyrir lok þessa árs þannig að til geti orðið tvö lífvænleg sjálfstæð ríki Palestínu og Ísraels," segir í tilkynningu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×