Innlent

Furðulegt að forseti borgarstjórnar hafi ekki sett út á orðaval borgarstjóra

Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, furðar sig á því af hverju forseti borgarstjórnar hafi ekki gert athugasemd við ummæli borgarstjóra á borgarstjórnarfundi í gær við fyrirspurn hans um málefni Laugavegar fjögur og sex. Borgarstjóri neitaði að svara og sagði borgarstjórn setja ofan með nærveru Óskars.

Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, lagði fram fyrirspurn til Ólafs F. Magnússonar borgarstjóra í upphafi borgarstjórnarfundar í gær. Óskar segist hafa spurt hvort borgarstjóra hafi verið kunnugt um þegar hann réð sér aðstoðarmann, að sá hinn sami hefði á sínum tíma ráðlagt borgaryfirvöldum niðurrif á húsunum við Laugaveg 4 og 6.

Þá hefði hann einnig spurt hvort borgarstjóri teldi það verða til að auka traust almennings á borgarstjórn Reykjavíkur, sem nú mælist í sögulegu lágmarki, að aðstoðarmaður hans sem myndaði meirihluta um varðveislu húsanna við Laugaveg 4 og 6 hafi verið ráðgjafi borgarinnar um niðurrif húsanna á sínum tíma

Borgarstjóri neitaði að svara fyrirspurn Óskars og sagði borgarstjórn setja ofan með nærveru Óskars. Hann segir að borgarstjóri verði að eiga það við sig að hafa ekki svarað spurningunum en þeim sé enn ósvarað. Það hafi hins vegar verið vonbrigði að forseti borgarstjórnar, Hanna Birna Kristjánsdóttir, sem sé nákvæm hafi ekki gert athugasemd við ummæli borgarstjóra.

Óskar telur nýja meirihlutann hafa farið alltof geyst í þriggja ára áætlun borgarinnar. Hann bendir á að áætlunin sé í raun pólitíkin út kjörtímabilið. Minnihlutinn hafi bent á margt sem meirihlutinn hafi sagst ætla að gera en því finnist enginn staður í áætluninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×