Innlent

Gert ráð fyrir miklum framkvæmdum á Akureyri

Sigrún Björk Jakobsdóttir.
Sigrún Björk Jakobsdóttir.

Byggingu Hofs menningarhúss, fyrri áfanga Naustaskóla og fimleikahúss verður lokið á árinu 2009. Unnið verður áfram að uppbyggingu íþróttasvæða í tengslum við væntanlegt landsmót UMFÍ. Þetta kemur fram í þriggja ára áætlun Akureyrarbæjar, sem lögð er fram í bæjarstjórn í dag.

Auk framangreindra verkefna verður unnið að hefðbundinni uppbyggingu á gatna- og fráveitukerfi bæjarins en bæjaryfirvöld áforma að framkvæma fyrir rúma 2 milljarða króna á tímabilinu í þessum málaflokkum. Innifalið í því er bygging hreinsivirkis í Sandgerðisbót sem kosta mun nær 700 milljónir króna en þar af falla til tæpar 500 milljónir. kr. á árunum 2009-2011.

Þá munu framkvæmdir Norðurorku halda áfram og miðast þær að því að tryggja fyrirtækjum, bæjarfélaginu og nágrannasveitarfélögum nægjanlega orku til upphitunar húsnæðis og eflingar atvinnulífs.

Í forsendum þriggja ára áætlunar er gert ráð fyrir fjölgun íbúa um 200 á ári. Í tilkynningu frá bæjaryfirvöldum segir að þróunin síðastliðin 10 ár sýni heldur meiri aukningu og síðasta ár hafi slegið öll met þegar bæjarbúum fjölgaði um ríflega 400 manns. Bærinn geri ráð fyrir að úttsvarsprósenta verði óbreytt á milli ára eða 13,03%.

Gert ráð fyrir rekstrarafgangi

Í heild, þ.e. fyrir A- og B-hluta gerir áætlunin ráð fyrir góðum rekstrarafgangi á tímabilinu, þrátt fyrir aukna þjónustu við bæjarbúa á flestum sviðum. Veltufé frá rekstri í A- og B-hluta er rúmir 4,8 milljarðar króna á tímabilinu.

Í A-hluta, þ.e. bæjarsjóði og A-hluta fyrirtækjum, er gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði tæpir 2 milljarðar króna á tímabilinu og skili það handbæru fé upp á rúma 1,5 milljarða í lok árs 2011.

Gert er ráð fyrir að velta sveitarfélagsins og fyrirtækja þess verði um 14 milljarðar króna á ári þessi ár en þar af verði skatttekjur tæpir 6 milljarðar króna á ári. Bæjaryfirvöld segja að mikil uppbygging í stoðþjónustu bæjarfélagsins undanfarin ár hafi leitt til vaxandi rekstrarútgjalda en tekjuþróun sveitarfélagsins brúi bilið að mestu leyti. Tekið sé á þessari þróun með 50-150 milljóna kr. árlegri hagræðingarkröfu í rekstri málaflokka.

Þá segja bæjaryfirvöld að fjárhagsleg staða Akureyrarbæjar sé traust og þrátt fyrir miklar framkvæmdir aukist skuldir A- og B-hluta lítið á tímabilinu en verði þó nokkuð lægri á hvern íbúa árið 2011 en það var í árslok 2006.

Bæjaryfirvöld segja að eiginfjárhlutfall Aðalsjóðs hækki úr 0,68 í 0,78 á tímabilinu. Veltufjárhlutfall Aðalsjóðs verði mjög gott eða 2,9 í lok tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×