Innlent

Einar K: Óþolandi rangfærslur umhverfissamtaka

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Einar K. Guðfinnson, sjávarútvegsráðherra, sagði í ræðu í Lilleström í dag að rangfærslur þekktra umhverfissamtaka um stöðu hvítfisksstofna væru óþolandi. Ráðherrann er staddur í Noregi á sjávarútvegsráðstefnu og þar lét hann þessi orð falla um samtökin og sagði þau láta einskis ófreistað til að koma málstað sínum á framfæri.

„Á undanförnum árum höfum við Íslendingar, bæði stjórnvöld og aðrir sem hagsmuna eiga að gæta, orðið að verja vaxandi tíma og orku í að útskýra sjávarútvegsstefnu okkar og draga fram að hún er byggð á hugmyndafræðinni um sjálfbæra nýtingu," sagði Einar .

„Þetta hefur meðal annars helgast af því að í umræðunni veður uppi alls konar rugl og rangar fullyrðingar. Þekkt samtök hafa haldið fram hreinum rangfærslum sem ekki hefur reynst auðvelt að leiðrétta. Sem dæmi um þetta má nefna hin þekktu samtök World Wildlife Fund, WWF, sem meðal annars halda því fram á sumum vefsíðna sinna og víðar, að þorskur sé í útrýmingarhættu. Líkt og að í heiminum sé einn fiskstofn, sem þorskur heitir, og lúti sams konar veiðistjórn um allan heim," sagði ráðherrann og bætti því við að það sé „algjörlega óþolandi" að þurfa að sitja undir „slíkum og þvílíkum rangfærslum" og sagði hann þær skaða orðspor Íslendinga og valda búsifjum á mörkuðum. „Má það telja undarlegt að samtök sem vilja láta taka sig alvarlega skuli haga sér með þessum hætti."

Einar bætti því við að Íslendingar hafi sýnt að þeir séu reiðubúnir að taka erfiðar ákvarðanir sem valda tímabundnum efnahagslegum erfiðleikum, tekjutapi þjóðarbúsins og þrengingum á mörkuðum til skamms tíma, ef það megi verða til þess að byggja upp fiskistofnana.

„Sem ábyrg nýtingarþjóð förum við bara fram á eitt, - það er að vera dæmd af verkum okkar og ákvörðunum. Íslendingar njóta sem betur fer álits fyrir að vinna að ábyrgð í sjávarútvegsmálum og það orðspor viljum við varðveita. Við teljum okkur hafa sýnt það að við stöndum undir þeirri viðurkenningu sem fiskurinn okkar nýtur á alþjóðavettvangi. Því er algjörlega ótækt að sætta sig við að óvandaður málflutningur einstakra aðila, sem hirða ekki um að leita sannleikans, skuli enn vaða gagnrýnislaust uppi."

Ráðherra fór einnig yfir stöðu þorsks, ýsu, ufsa og karfa á Íslandsmiðum, almenn viðhorf til nýtingar fiskistofna og hvað til þurfi svo vel gangi. Hann sagði að sjálfbær nýting auðlindarinnar væri grundvallaratriði og virkt samstarf vísindamanna, stjórnvalda og atvinnugreinarinnar afar mikilvægt.

Að endingu benti hann á, að þrátt fyrir allt sem á hafi dunið, sé staða fiskistofna við Ísland ívið betri en víðast hvar annars staðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×