Innlent

Hafnfirðingar orðnir 25 þúsund

Á myndinni er Kristófer Máni ásamt föður sínum, Sveini Jónassyni, og Lúðvík Geirssyni bæjarstjóra.
Á myndinni er Kristófer Máni ásamt föður sínum, Sveini Jónassyni, og Lúðvík Geirssyni bæjarstjóra.

Hafnfirðingar náðu þeim áfanga í lok síðustu viku að verða 25 þúsund talsins og var tuttugu og fimm þúsundasti Hafnfirðingurinn heiðraður að því tilefni.

Sá heitir Kristófer Máni Sveinsson, er eins og hálfs árs og flutti úr Garðabæ í Hafnarfjörð. Lúðvík Geirsson bæjarstjóri afhenti Kristófer Mána sérstakt heiðursskjal í tilefni þessa merka áfanga ásamt góðum gjöfum.

Fram kemur í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ að við upphaf aldarinnar hafi Hafnfirðingar verið rúmlega 19.600 og hefur þeim því fjölgað um 27 prósent á átta árum. Mest hefur fjölgunin verðið tvö síðustu ár eða á milli 5-6 prósent sem samsvarar því að íbúum fjölgi um liðlega 100 í hverjum mánuði. Til samanburðar fjölgaði íbúum á höfuðborgarsvæðinu öllu um 12 prósent á árunum 2000 til 2007 og í Kópavogi um 21 prósent.

Í tilefni tímamótanna er bæjarbúum boðið upp á kaffi og kökur í dag í þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar í ráðhúsi bæjarins við Strandgötu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×