Innlent

Fá allt að milljón á sólarhring á loðnuskipunum

Dæmi eru um að skipstjórar á góðum loðnuskipum séu að fá um og yfir eina milljón á sólarhring og að hásetahluturinn hlaupi á hundruðum þúsunda.

Það er því ekki liðin tíð að peningalykt finnist víða á loðnuvertíðinni, eins og frægt varð fyrst eftir að landsmenn hófu loðnuveiðar. Ef tekið er dæmi af 1700 tonna farmi sem allur fer í frystingu á Japansmarkað er aflaverðmætið upp úr sjó 26 til 27 milljónir króna. Af því fær skipstjórinn 1300 þúsund og hásetahluturinn er um 360 þúsund. Þetta eru tölur án orlofs og llífeyrissjóðsgreiðslna.

Í góðri veiði getur það tekið skipið niður í nokkrar klukkustundir að fá þennan afla þannnig að veiðiferðin í heild getur tekið allt niður í einn sólarhring ef landað er nálægt miðunum en algengara er að veiðiferðin taki einn til fjóra sólarhringa.

Það eru því uppgrip á loðnumiðunum þessa dagana og mikið kapp í mönnum eftir að aukið var við kvótann í gær. Formlegri loðnuleit lauk hins vegar í morgun þegar Árni Friðriksson kom til heimahafnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×