Innlent

Stóriðja notar 70 prósent af raforkunni

MYND/GVA

Raforkunotkun á landinu á síðasta ári nam um 11.600 gígavattstundum samkvæmt samantekt Orkustofnunar 

Í tilkynningu frá stofnuninni kemur fram að af því hafi um 8.100 gígavattsstundir farið til stórnotenda og jókst notkun þeirra um nærri 30 prósent frá fyrra ári. Þá nam almenn raforkunotkun um 3500 gígavattsstundum og jókst um 4,2 prósent milli ára.

Alls nam raforkuvinnsla í landinu tæpum 12 þúsund gígavattsstundum í fyrra og jókst hún um fimmtung frá árinu 2006. Tap við flutning orkunnar frá virkjunum til almenningsveitna og stórnotenda nam 330 gígavattstundum.

Notkun stóriðju jókst verulega á síðasta ári sökum stækkunar Norðuráls og tilkomu Fjarðaáls. Síðasta áratug hefur stórnotkunin aukist um nærri 5300 gígavattsstundir er hlutur stóriðju kominn í um 70 prósent af raforkunotkuninni á landinu.

Raforkunotkun hér á landi sú mesta í heimi

Aukning á almennri raforkunotkun er eilítið minni en árið 2006 þegar hún var 4,8 prósent en á því ári var um fimmtungur aukningarinnar vegna virkjanaframkvæmda á Austurlandi. Sú notkun minnkaði síðan á síðasta ári og ef henni er sleppt er því aukningin meiri á síðasta ári en árið á undan.

Raforkunotkun á íbúa er mikil hér á landi, aðallega vegna hlutfallslega mikillar notkunar stóriðjufyrirtækja. Árið 2002 varð notkunin hér á landi sú mesta í heiminum en fram til þess tíma hafði notkunin verið mest í Noregi. Árið 2007 jókst notkunin úr tæplega 33 megavattsstundum á íbúa í 38,5 megavattsstundir. Fyrirséð er að raforkunotkun fari í um 52 megavattsstundir á íbúa þegar Fjarðaál er komið er komið í fullan rekstur síðar á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×