Innlent

Stækkun Kringlunnar tefst vegna sviptinga í borgarstjórn

Áform um stækkun Kringlunnar hafa tafist vegna sviptinga í borgarstjórn, segir framkvæmdastjóri Landic Property á Íslandi sem á stærstan hluta verslunarkjarnans. Hann vonast til að nýi meirihlutinn í borginni taki málið föstum tökum.

Tíð meirihlutaskipti í borginni hafa áhrif á ýmsum sviðum og meðal annars orðið til að hugmyndir um að stækka Kringluna hafa enn ekki gengið í gegn.

Landic Property og SPRON hafa nú í þrjú ár unnið að hugmyndum um stækkun Kringlunnar með tengingu yfir Kringluveginn yfir að því svæði þar sem nú standa Morgunblaðshúsið og Sjóvá.

Framkvæmdastjóri Landic Property á Íslandi, Örn Kjartansson, sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í morgun að hugmyndir hafi verið kynntar skipulagsyfirvöldum í borginni en málið hafi tafist vegna tíðra meirihlutaskipta.

Það er meðal annars vegna þess að hönnun á stækkaðri Kringlu verður að taka mið af því sem gert verður á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar en eins og kunnugt er hafa meirihlutarnir þrír sem setið hafa við völd í borginni síðustu tvö ár ekki haft sömu skoðun á því hvort þar skuli vera mislæg gatnamót eður ei.

Örn segir mikla þörf fyrir stækkun, allt verslunarpláss sé í útleigu og bílastæði sprungin á álagstímum. Síðustu þrjú árin hafi verið mikil uppbygging á verslunarhúsnæði í nágrannasveitarfélögum og því hefði félagið viljað að ferlið gengi hraðar fyrir sig. Hins vegar vonist þeir til að niðurstaða náist á þessu ári og þá gæti enn stærri kringla verið risin á næstu 3-5 árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×