Innlent

Skriða verðhækkana gengur yfir

Skriða verðhækkana gengur nú yfir í matvöruverslunum og dæmi eru um hækkanir upp á 5 til 10 prósent að sögn formanns Neytendasamtakanna. Hann óttast frekari hækkanir á næstunni.

Stjórn Neytendasamtakanna sendi forsætisráðherra nýlega bréf þar sem óskað er eftir því að hann beiti sér fyrir stofnun samráðsvettvangs til að hamla gegn verðhækkunum á matvörum. Samtökin óttast frekari hækkanir á næstu mánuðum verði ekkert að gert.

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segir verðlag á hraðri leið upp á við. Það eigi ekki bara við landbúnaðarvörur sem mikið hafi verið til umræðu síðustu daga. Birgjar hafi verið að hækka og tilkynna um verðhækkanir.

Þá hafa Neytendasamtökin einnig sent erindi til Samkeppniseftirlitsins þar sem óskað er eftir rannsókn á þeim hækkunum sem hafa orðið. Telja samtökin mikilvægt að það verði skoðað hvort þær hækkanir sem um er að ræða eigi sér eðilegar skýringar. „Það eru vissar grunsemdir um það að verið sé að notfæra sér það ástand sem er á heimsmarkaði," segir Jóhannes og vísar til grunsemda um að seljendur noti hækkanir á heimsmarkaðsverði til að ná til sín aukinni álagningu.

Jóhannes segir ávinning neytenda af virðisaukaskattslækkuninni í fyrra horfinn og að hækkanirnar nú muni skella á heimilum af fullum þunga. „Við erum ekki einvörðungu að tala um hækkanir á matvörum, þetta kyndir undir verðbólguna og mun koma með tvöföldum þunga á heimilin, alla vega þau heimili sem eru skuldsett í formi hækkunar vegna verðtrygginga lána," segir Jóhannes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×