Innlent

Íslendingar gáfu íbúuum í Nikaragva sjúkrabíl

Séra Hjálmar í útvarpsviðtali í beinni útsendingu við svæðisútvarpið í Camoapa.
Séra Hjálmar í útvarpsviðtali í beinni útsendingu við svæðisútvarpið í Camoapa. Mynd/ Gunnar Salvarsson

Hjálmar Jónsson, dómkirkjuprestur og stjórnarmaður í Þróunarsamvinnustofnun Íslands, afhenti á dögunum Rauðakrossdeild borgarinnar Camoapa í Níkaragva nýjan sjúkrabíl.

Bíllinn var afhentur í fyrstu vettvangsferð fullrúa stjórnar ÞSSÍ og framkvæmdastjóra til Níkaragva en Íslendingar tóku upp þróunarsamvinnu við þetta fátækasta ríki Mið-Ameríku á árinu 2006, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Þróunarsamvinnustofnuninni.

„Meðal fyrstu félagslegu verkefna Íslendinga í landinu er stuðningur við Mæðrahús í strjálbýli en slík hús er byggð í grennd við sjúkrahús sem þjóna stórum dreifbýlum svæðum. Mæðrahúsin eru sérstaklega ætluð konum í áhættumeðgöngu, bæði fyrir og eftir fæðingu. Sjúkrabíllinn í Camoapa nýtist ekki síst verðandi mæðrum í Mæðrahúsinu sem þurfa oft með litlum fyrirvara að fara á sjúkrahúsið í sveitarfélaginu," segir í tilkynningunni.

Í tilefni af afhendingu sjúkrabílsins var efnt til hátíðar við Mæðrahúsið. Þar voru fluttar þakkarræður og stúlkur sýndu þjóðdansa. Í forföllum kaþólska sóknarprestsins fór séra Hjálmar með bænarorð og allir viðstaddir tóku undir Faðirvorið á móðurmáli sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×