Innlent

Erfiðleika SMFR má rekja til 30 milljóna króna halla

MYND/GVA

Erfiðleika Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Reykjanesi má rekja til 30 milljóna króna halla á rekstrinum sem verið er að reyna að leysa. Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþinig í dag.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri - grænna, vitnaði til umfjöllunar Ríkisútvarpsins um svæðisskrifstofuna í fyrirspurn sinni en þar hefur komið fram að ráðstöfunarfé stofnunarinnar sé uppurið og það komi niður á fjölskyldum fatlaðra barna sem fá ekki endurnýjaða samninga um stuðning.

Árni Þór benti á að samkvæmt lögum um málefni fatlaðra skuli réttur fjölskyldna til stuðningsfjölskyldna tryggður og spurði hann ráðherra hvernig bregðast ætti við þessari stöðu.

Jóhanna Sigurðardóttir sagði gert meira úr málinu en efni stæðu til. Enn hefði engum samningi við stuðningsfjölskyldur verið hafnað. Jóhanna sagði stuðningsfjölskyldur fyrir fjölskyldur fatlaðra barna mjög mikilvægt úrræði en svæðisskrifstofan hefði átt í ákveðnum erfiðleikum. Þá mætti rekja til 30 milljóna króna halla á rekstri svæðisskrifstofu sem verið væri að reyna að leysa.

Sagði Jóhanna að nú stæði yfir fundur með forsvarsmönnum svæðisskrifstofunnar og hún ætti von á því reynt yrði að finna lausn á þessu máli. Sagði Jóhanna að stuðningsfjölskyldur væru ekki mjög dýrt úrræði en mikilvægur valkostur. Tíu milljónir þyrfti til að leysa þann vanda en einnig þyrfti að leysa hallavandræði svæðisskrifstofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×