Innlent

Loðnukvótinn verði aukinn um 50 þúsund tonn

Hafrannsóknarstofnun leggur til við sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra að loðnukvótinn á yfirstandandi vertíð verði aukinn um 50 þúsund tonn í ljósi þess að aukin loðna hefur mælst við landið.

Fram kemur á vef Hafrannsóknastofnunar að rannsóknaskipið Árni Friðriksson hafi fundið um 56 þúsund tonn af loðnu austan við Ingólfshöfða en það er langt austan við það svæði sem mælt var dagan 25.-27. febrúar og var forsenda þeirrar ráðgjafar í síðustu viku að heimila veiðar á 100 þúsund tonnum af loðnu.

Loðnuveiðikvótinn verður því 150 þúsund tonn ef ráðherra heimilar viðbótarkvótann. Það hafa því orðið miklar breytingar á tæpum tveimur vikum því í þarsíðustu viku var komið á loðnuveiðibanni þar sem loðna hafði ekki fundist í nægjanlegu magni.

Á vef Hafró segir að Árni Friðriksson hafi nú lokið loðnuleit og mælingum fyrir Suðaustur- og Austurlandi og mun halda vesturum og sinna rannsóknum vestast á veiðisvæðinu sem nú er út af Krísuvíkurbjargi. Í framhaldi af því mun skipið sinna rannsóknum á botnfiskum en jafnframt kanna svæðið fyrir sunnanverðum Vestfjörðum ef vera kynni að loðna kæmi í umtalsverðu magni þá leiðina til hrygningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×