Innlent

Væntir mikils af nýjum Rússlandsforseta

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, væntir mikils af nýjum forseta Rússlands, Dmítrí Medvedev, í baráttunni gegn loftlagsbreytingum á komandi árum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í heillaóskakveðju sem Ólafur Ragnar sendi Medvedev í morgun í framhaldi af sigri þess síðarnefnda í kosningum í gær.

Í tilkynningu frá forsetaembættinu segir að bæði rússneska þjóðin og veröldin öll vænti mikils af störfum hins nýja forseta enda framlag Rússlands við lausnir á vandamálum mannkyns afar brýnt, svo sem í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og fyrir friði og farsælli sambúð allra ríkja.

Forseti Íslands býst einnig við áframhaldandi samvinnu Íslendinga og Rússa á sviði viðskipta og menningar. „Á komandi árum væntu Íslendingar þess að hæfni þeirra við nýtingu hreinnar orku, einkum jarðhita, gæti nýst Rússum við breytingar á orkukerfum landsins og að samvinna þjóðanna í málefnum Norðurslóða yrði áfram árangursrík. Norðurslóðir væru í vaxandi mæli einn mikilvægasti hluti heims, einkum vegna auðlindanna sem þar er að finna og nýrra siglingaleiða sem kunna að opnast á komandi árum," segir í tilkynningu forsetaembættisins




Fleiri fréttir

Sjá meira


×