Innlent

Áfrýjunardómstóll hafnar frávísunarkröfu Hannesar

Jón Ólafsson hyggst taka upp mál gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni á nýjan leik eftir að áfrýjunardómstóll í Bretlandi hafnaði frávísunarkröfu Hannesar í morgun. Biðjist Hannes afsökunar og greiði Jóni átta milljónir í skaðabætur auk kostnaðar mun Jón fella málið niður.

Jón höfðaði málið gegn Hannesi árið 2004 en Hannes hafði gefið það í skyn á heimasíðu sinni að Jón hefði efnast á ólöglegan hátt. Dómstóll í Bretlandi komst að þeirri niðurstöðu að ummæli Hannesar hafi verið afar meiðandi og því bæri honum að greiða Jóni 60 þúsund pund í bætur eða sem nemur tæpum átta milljónum íslenskra króna. Að auki var Hannesi gert að greiða allan málskostnað.

Hannes andmælti ekki dómnum né hélt uppi vörnum og þegar Jón hugðist innheimta skaðabæturnar neitaði Hannes því og fór fram á málinu yrði vísað frá dómi á þeim forsendum að stefnan gegn honum hafi verið ólögmæt. Málið fór fyrir öll dómstig í Bretlandi og í dag vísaði áfrýjunardómstóllinn í Bretlandi frávísunarkröfu Hannesar frá.

Það þýðir að nú getur Jón tekið málið upp aftur fyrir breskum dómsstólum. Jón Ólafsson sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í morgun að það hyggðist hann gera nema Hannes greiði honum skaðabæturnar sem dómstólar úrskurðuðu að honum bæri að gera auk kostnaðar. Þá vill Jón að Hannes biðjist opinberlega afsökunar á ummælum sínum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×