Innlent

Stærsti framhaldsskóli landsins einkarekinn

Menntafélagið hefur rekið Fjöltækniskólann frá árinu 2003.
Menntafélagið hefur rekið Fjöltækniskólann frá árinu 2003. MYND/Hari

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra undirritaði í dag samning við Menntafélagið ehf. um að annast rekstur nýs framhaldsskóla er verður til við sameiningu Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskóla Íslands. Samningurinn er til fimm ára og gildir frá 1. júlí 2008.

Fram kemur í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu að skólinn verði stærsti framhaldsskóli landsins með vel á þriðja þúsund nemendur, 250 starfsmenn og yfir 40 námsbrautir. Námsframboð í hinum nýja skóla verður óbreytt til að byrja með en samið verður um þróun námsframboðs í skólasamningi og komið á fót samráðshópi menntamálaráðuneytis og skólans um skólaþróun.

Fjölga iðnnemum um tíu prósent á fimm árum

Viðræður um sameiningu skólanna hafa staðið í á annað ár en markmið sameiningarinnar og verksamningsins er að sögn menntamálaráðuneytisins meðal annars að móta öflugan iðn- og starfsmenntaskóla, að fjölga nemendum sem velja sér iðn- eða starfsnám að loknu námi á almennri námsbraut um 10 prósent á samningstímanum, að draga úr brottfalli í iðn- og starfsnámi um 20 prósent á þremur árum og að jafna hlut kynjanna í einstaka námsgreinum.

Þá á að gera iðn- og starfsmenntun eftirsóknarverða fyrir ungt fólk og skipa henni veglegan sess í samfélaginu. Enn fremur að fjölga möguleikum nemenda í iðn- og starfsmenntun til að leggja stund nám til stúdentsprófs og viðbótarnám til háskólaeininga.

Menntafélagið ekki rekið í ágóðaskyni

Öllum fastráðnum starfsmönnum Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskóla Íslands verður boðið starf við hinn nýja skóla og halda þeir réttindum sínum og kjörum óskertum. Nemendur sem stunda nám við Fjöltækniskóla Íslands og Iðnskólann í Reykjavík við gildistöku samningsins eiga rétt til að ljúka skilgreindu námi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla.

Menntafélagið er í eigu Samtaka iðnaðarins, Landssambands íslenskra útvegsmanna, Samorku, Sambands íslenskra kaupskipaútgerða og Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík. Félagið hefur rekið Fjöltækniskóla Íslands með samningi við menntamálaráðuneyti frá árinu 2003. „Menntafélagið er ekki rekið í ágóðaskyni heldur rennur allur hugsanlegur ágóði af rekstri þess beint í skólareksturinn. Samkvæmt samþykktum félagsins munu eigendur þess í upphafi leggja fram 100 milljónir króna til þróunarstarfs í skólanum," segir enn fremur í tilkynningu menntamálaráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×