Innlent

Ísland tengist nýjum reglum ESB um fangaframsal

Franco Frattini og Björn Bjarnason eftir fundinn í Brussel í gær.
Franco Frattini og Björn Bjarnason eftir fundinn í Brussel í gær. MYND/Dómsmálaráðuneyti

Stefnt er að því að Ísland tengist nýjum reglum sem eru í mótun inna Evrópusambandsins um framsal dæmdra manna milli ríkja. Þetta var meðal þess sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og Franco Frattini, dómsmálastjóri ESB, ræddu á fundi sínum í gær.

Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu segir að hinar nýju reglur miði að því að auðvelda framsal milli landa með það að markmiði að fangar taki út refsingu í heimalandi sínu.

Björn og Frattini ræddu einnig sameiginleg verkefni sem leiða af Schengen-aðild Íslands og snerta samstarf á sviði öryggis- og lögreglumála. Þá gerði dómsmálaráðherra Frattini grein fyrir því, að ríkisstjórnin hefði samþykkt, að hann ræddi um þátttöku í lögreglusamstarfi ESB-ríkjanna, sem byggist á svonefndu Prüm-samkomulagi. Munu embættismenn Íslands og ESB vinna að úrlausn málsins með það fyrir augum að tengslin verði samningsbundin.

Þá ætla Ísland og ESB að hafa sem mest samstarf um skráningu og miðlun persónuupplýsinga flugfarþega, bæði innan Schengen-svæðisins og einnig gagnvart Bandaríkjunum. Kemur fram í tilkynningunni að eftirlit af þessu tagi sé ein öflugasta leiðin til að sporna gegn hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×