Innlent

Borgaryfirvöld að tala sig inn í kreppuna

Borgaryfirvöld eru tala sig inn í kreppuna í stað þess að vinna sig út úr henni að mati borgarfulltrúa Framsóknarflokksins. Hann segir ásakanir borgarstjóra um að hann fari með rangt mál í gagnrýni sinni á framkvæmdaáætlun borgarinnar úr lausu lofti gripnar.

Minnihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur hefur gagnrýnt þriggja ára áætlun meirihlutans harðlega. Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, hefur meðal annars sagt að áætlunin einkennist af verulegum niðurskurði meðal annars til íþróttamála.

Í fréttum Stöðvar tvö í gær vísaði Ólafur F. Magnússon borgarstjóri þessari gagnrýni á bug. Sagði hann þvert á móti að verið væri að auka framlög íþróttamála.

Óskar Bergsson, sagði í samtali við fréttastofu í morgun, borgarstjóra fara með rangt mál. Hann bendir á að samkvæmt fjárhagsáætlun sem meirihluti framsóknar- og sjálfstæðismanna samþykkti á síðasta ári hefðu um þrír og hálfur milljarðar átt að renna til íþróttamála á næstu tveimur árum. Samkvæmt hinni nýju áætlun er aðeins gert ráð fyrir um 2,5 milljörðum. Því sé um verulegan niðurskurð að ræða.

Þá segir hann ljóst að miðað við núverandi fjárhagsáætlun sé meirihlutinn að tala sig inn í kreppuna í stað þess að vinna sig út úr henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×