Innlent

Kristján Möller gaf sig fram í morgun

Breki Logason skrifar
Gunnar I Birgisson
Gunnar I Birgisson
Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri í Kópavogi auglýsti eftir Kristjáni L. Möller samgönguráðherra í Morgunblaðinu í morgun undir fyrirsögninni, Hvar ertu Kristján? Ráðherrann brást skjótt við og mætti í vínarbrauð rétt fyrir níu í morgun.

„Hann býr hérna í Kópavoginum og því var stutt fyrir hann að fara. Hann var mættur rétt fyrir níu í morgun eftir að hafa lesið Morgunblaðið," segir Gunnar sem átti klukkutímafund með Kristjáni í morgun.

Í grein sinni í Morgunblaðinu í morgun sagði Gunnar frá því að Kristján hefði boðað komu sína á bæjarskrifstofunnar en ekkert hefði sést til hans í þá níu mánuði sem hann hefði verið í embætti. „Það hefur verið mikið að gera hjá honum en ég var ánægður með hvað hann brást skjótt við."

Gunnar skrifaði einnig í grein sinni að þeir væru ófáir morgnarnir sem hann hefði setið einn að rúnstykkjunum og sætabrauðinu eins og hryggbrotin mær....."með þeim afleiðingum sem sjá má á holdarfari ljósmyndafyrirsætu ársins."

Gunnar segist að sjálfsögðu hafa boðið upp á vínarbrauð og með því. „Hann bjargaði mér því frá því að borða öll brauðin sjálfur."

Kristján og Gunnar eru gamlir kunningjar úr þinginu og fór vel á með þeim í morgun að sögn Gunnars en félagarnir ræddu m.a samgöngumál í Kópavoginum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×