Innlent

Verðlag hæst á Íslandi samkvæmt nýrri samantekt

MYND/Sigurður Jökull

Hlutfallslegt verðlag reyndist hæst á Íslandi samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum alþjóðlegs verðsamanburðar fyrir árið 2006 sem greint er frá á vef Hagstofunnar.

Þar kemur fram samanburðurinn náði til Íslands og 36 annarra Evrópuríkja, þar á meðal allra ESB -ríkjanna. Með hlutfallslegu verðlagi er átt hlutfalli milli svokallaðra jafnvirðisgilda og gengis og er það oft notað í samanburði á milli ríkja.

Hlutfallslegt verðlag sýnir ekki kaupmátt tekna í hverju landi fyrir sig heldur eingöngu kaupmátt gjaldmiðla einstakra ríkja og hefur gengi krónunnar áhrif á niðurstöðuna. Vísitala fyrir Ísland sem er 142 sýnir að fyrir vörur og þjónustu sem kostuðu 100 evrur að meðaltali í Evrópusambandinu á árinu 2006 þurfti að greiða 142 evrur á Íslandi. Er þá byggt á meðalgengi íslensku krónunnar gagnvart evru á því ári.

Næst á eftir Íslandi koma Danir, Norðmenn Svisslendingar og Írar. Hlutfallslegt verðlag reyndisthins vegar lægst í Makedóníu og Búlgaríu.

Þá reynist hlutfallslegt verðlag á mat og drykkjarvörum einnig hæst á Íslandi, eða 164 stig. EFTA-löndin ásamt Danmörku skera sig úr með hæsta hlutfallslega verðlag á mat og drykkjarvörum. Lægst verðlag á mat og drykk samkvæmt könnuninni er í Búlgaríu og í Makedóníu en í þeim löndum er verðið 56 prósent af meðalverði ESB.

Einnig kemur fram í tölum Hagstofunnar að Ísland er í hópi ríkja þar sem verg landsframleiðsla á mann er mest, eða 30 prósent yfir meðaltali Evrópusambandsríkjanna 27. Landsframleiðslan er minnst í Albaníu, 21 prósent af meðaltali ESB, en mest er landsframleiðsla á mann í Lúxemborg, 180 prósent yfir meðaltalinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×