Innlent

Stjórnvöld þvælist ekki fyrir álveri í Helguvík

MYND/Oddgeir
Norðurál stefnir að því að hefja framkvæmdir við nýtt álver í Helguvík innan fimm mánaða. Samtök atvinnulífsins hafa í viðræðum um aðkomu ríkisvaldsins að lausn kjarasamninga lágt áherslu á að ekki verði lagður steinn í götu þessa verkefnis.

Norðurálsmenn höfðu reyndar sett það markmið að hefja jarðvegsframkvæmdir fyrir nýliðin áramót en hafa nú sett stefnuna á að hefjast handa á fyrri hluta þessa árs. Orkusamningar liggja fyrir við bæði Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur en það sem helst hefur tafið málið eru viðræður við sveitarfélög um legu háspennulína, sem nú sér fyrir endann á. Oddný Guðbjörg Harðardóttir, bæjarstjóri í Garðinum, kveðst ekki vita betur en að það sé að ganga upp og býst við góðum fréttum af því innan hálfs mánaðar. Hún kveðst vona að framkvæmdir við smíði álversins hefjist með vorinu.

Álverið verður bæði í lögsögu Reykjanesbæjar og Garðs. Bæjarstjóri Garðs segir þetta það sem svæðið þurfi á að halda. Herinn hafi farið og Suðurnesjamenn hafi þurft að þola kvótaskerðingu eins og aðrir. Atvinnuástand sé ekki gott og það þurfi stöðugleika, sem menn vonist til að fá með þessu fyrirtæki.

Samtök atvinnulífsins hafa blandað Helguvíkurálverinu inn í kjaraviðræður með ósk til ríkisstjórnarinnar. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri þeirra, segir að stjórnvöld eigi að reyna að greiða fyrir því að þetta verkefni geti farið af stað. Það sé alls ekki hlutverk stjórnvalda að þvælast fyrir málum, ekki síst þegar menn sjái fram á erfiðan vetur fram undan í atvinnumálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×