Innlent

Síbrotamaður áfram í gæsluvarðhaldi vegna þjófnaðarbrota

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness vegna síbrotamanns sem grunaður er um stórfelld auðgunarbrot.Fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurðinum að hann skuli sæta gæsluvarðhaldi til loka þessa mánaðar eða þar til dómur fellur í máli hans.

Maðurinn hefur verið ákærður fyrir samtals sex auðgunarbrot og nemur andvirði þjófnaðarins rúmum fjórum milljónum króna, Maðurinn á að baki töluverðan sakaferil og hefur frá árinu 2001 hlotið sex dóma fyrir þjófnaði.

Síðast var hann dæmdur í tveggja ára og fjögurra mánaða fangelsi fyrir fjölda þjófnaðarbrota. Dómurinn er þó ekki fullnustuhæfur því maðurinn hefur áfrýjað honum til Hæstaréttar og verður málflutningur þar 20. febrúar.

Segir enn fremur í gæsluvarðhaldsúrskurðinum að maðurinn hafi að stærstum hluta viðurkennt aðild sína að þeim brotum sem hann sé ákærður fyrir og því ljóst að hann eigi nú yfir höfði sér fangelsisrefsingu. Telur lögregla að hann haldi áfram brotum ef honum verið sleppt og því sé nauðsynlegt að hafa hann áfram í gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í málum hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×