Innlent

Samstarf fasteignasala breytir ekki miklu fyrir Remax

Andri Ólafsson skrifar

Þórarinn Arnar Sævarsson, einn eigenda Remax á Íslandi, segist ekki sjá hverju það muni breyta fyrir sitt fyrirtæki þó nokkrar af stærstu fasteignasölum Íslands hefji nánari samstarf.

Vísir greindi frá því í gærkvöldi að hugmyndir þess efnis séu í farvatninu og að um tuttugu fasteignasölur séu nú í viðræðum um að hefja samstarf á svokölluðum klasagrundvelli.

Með klasa er átt við hóp fyrirtækja sem eru í samvinnu og samkeppni og tengjast með þeirri sameiginlegu þekkingu sem þau búa að. „Þetta snýst fyrst og fremst um að auka þjónustu við kaupendur og seljendur í fasteignaviðskiptum," sagði Óskar Rúnar Harðarson löggiltur fasteignasali hjá fasteignasölunni Miklaborg, í samtali við Vísi í gærkvöld.

"Ég sé ekki hverju þetta breytir fyrir Remax fyrr en menn sameina þessar fasteignasölur að fullu. Ég trúi því hinsvegar ekki fyrr en ég sé það," segir Þórarinn á Remax. Hann segir ólíklegt að tuttugu eigendur fasteignasala geti komið sér saman um svo víðtækt samstarf.

"Það gæti hins vegar vel verið að þeir ætli að sameina söluskrár sínar eða kaupa sameiginlega auglýsingapláss í dagblöðum til þess að ná niður kostnaði," bætir Þórarinn við.

Aðspurður hvort þessari fyrirhuguðu sameiningu sé beint að Remax segist Þórarinn ekki sjá með hvaða hætti slíkt samstarf ætti að geta haft áhrif á Remax.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×