Innlent

Flestar stærstu fasteignasölurnar hyggja á samstarf

MYND/Egill

Flestar stærstu fasteignasölur landsins eiga nú í viðræðum um að hefja samstarf á svokölluðum klasagrundvelli. Samkvæmt heimildum Vísis er um að ræða um tuttugu fasteignasölur og er hugmyndin að bæta þjónustuna fyrir fólk í fasteignaviðskiptum. Óskar Rúnar Harðarson, löggiltur fasteignasali hjá fasteignasölunni Miklaborg, staðfestir í samtali við Vísi að viðræður standi nú yfir um aukið samstarf. Hann vildi ekki staðfesta hve margar sölur séu í viðræðunum en sagði að um væri að ræða flestar af stærstu fasteignasölum landsins.

„Viðræður hafa átt sér stað á mili valinkunnra fasteignasala á breiðum grundvelli um þætti sem betur mega fara til hagsbóta fyrir kaupendur og seljendur í fasteignaviðskiptum," segir Óskar. Hann segir að verið sé að skoða hvernig hækka megi þjónustustigið og auka fagmennsku og öryggi kaupenda og seljenda í fasteignaviðskiptum með vönduðum vinnubrögðum.

Með klasa er átt við hóp fyrirtækja sem eru í samvinnu og samkeppni og tengjast með þeirri sameiginlegu þekkingu sem þau búa að. „Þetta snýst fyrst og fremst um að auka þjónustu við kaupendur og seljendur í fasteignaviðskiptum," segir Óskar.

„Ný frumvarpsdrög um störf fasteignasala eru þvert gegn þessu markmiði og ekki því til framdráttar," segir Óskar. „Í dag er öllum gert kleift að stofna og reka fasteignasölu svo lengi sem þeir fá löggiltan fasteignasala til að „dekka" nafnið án nokkurra krafna til faglegra vinnubragða," segir Óskar að lokum að bætir því við að þessu þurfi að breyta enda eigi kaupendur og seljendur þá skýlausu kröfu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×